Loka leit
Skilmálar

Skilmálar

Heimsending heimilistækja

Heimakstur á seldum heimilistækjum til viðskiptavina Smith & Norland er miðaður við Stór-Reykjavíkursvæðið og stendur hann jafnan yfir hvern dag frá kl. 14:00 til 17:00, nema um annað sé samið sérstaklega. Við bjóðum upp á heimsendingu á stórum heimilistækjum á Höfuðborgarsvæðinu. Við sendum öll önnur heimilistæki (smátæki) á næsta Pósthús, sé þess óskað.

Viðskiptavinur skal vera tilbúinn að taka á móti tækjunum á þeim tíma er þau eiga að afhendast. Gert er ráð fyrir flutningi tækjanna inn á gólf kaupenda. Eldunartæki og amerískir kæliskápar eru jafnan afhent í umbúðum sem og stærri pakkar. Auk þess tökum við tillit til sérstakra óska viðskiptavina hvað þetta varðar.

Miklu máli skiptir að okkur sé gert auðvelt að koma tækjunum til viðskiptavina. Leið þarf að vera greið að þeim stað þar sem þau eiga að standa. Menn okkar geta alls ekki tekið að sér að færa til húsbúnað, losa hurðir og annað sem til fellur, svo að setja megi tækin á sinn stað. Allt slíkt veldur óæskilegum töfum og á að vera í höndum kaupenda.

Áréttað er að útkeyrslumenn okkar sinna engum tengingum, m.a. vegna ábyrgða o.fl. Slíkt verða eigendur sjálfir að annast.

Vegna tenginga á tækjum bendum við á:

  • Meistarafélag pípulagningarmanna,
  • Félag löggiltra rafverktaka, sími: 591 0150, www.sart.is

Vara er aldrei afhent nema einhver sé á afhendingarstað til að taka við henni.

Við leggjum auk þess ríka áherslu á að kaupendur lesi gaumgæfilega allar þær greinargóðu notkunarleiðbeiningar sem tilheyra tækjunum.

Kaupendur skulu kvitta fyrir móttöku tækjanna og yfirfara hvort ekki sé um rétt tæki að ræða og ástand þeirra ásættanlegt.

Förgun heimilistækja

Við bjóðum viðskiptavinum okkar að fjarlægja eldri heimilistæki og farga þeim um leið og ný tæki eru afgreidd með heimakstri. Greiða þarf sérstaklega fyrir þessa þjónustu. Heimakstur til viðskiptavina er miðaður við Stór-Reykjavíkursvæðið og stendur jafnan yfir virka daga frá kl. 14 til 17.

Kostnaður við að fjarlægja einstakt tæki, og farga því, er 4.900 kr. með vsk. en 2.500 kr. með vsk. fyrir hvert tæki þar umfram.

Tæki þurfa að vera tilbúin til flutnings, aftengd, laus úr innréttingum og með góðu aðgengi. Við fjarlægjum öll heimilistæki nema stærri kæli- og frystiskápa s.s. tvöfalda kæliskápa (ameríska). Við getum undir engum kringumstæðum tekið að okkur að færa húsbúnað, losað hurðir og annað það sem til fellur, til að hægt sé að fjarlægja eldri heimilistæki. Allt slíkt veldur óæskilegum töfum og hættu á skemmdum og skal framkvæmast af kaupendum. Áréttað er að við sinnum engum tengingum (s.s. við vatn og frárennsli eða rafmagn) m.a. vegna ábyrgðar o.þ.h. Slíkt verða eigendur sjálfir að annast.

Ef ofangreindum fyrirmælum er ekki fylgt þá áskiljum við okkur rétt til þess að takast ekki á hendur nefnda þjónustu og endurgreiða innheimt gjald.

Ábyrgð

Smith & Norland hf. veitir, frá dagsetningu reiknings skráðs kaupanda, fimm ára ábyrgð á öllum verksmiðju- eða efnisgöllum á stórum heimilistækjum sem tilgreind eru á honum og framkvæmir í því sambandi allar nauðsynlegar viðgerðir kaupanda að kostnaðarlausu. Fimm ára ábyrgðin gildir fyrir öll tæki sem keypt voru frá og með 1. júlí 2019 en tveggja ára ábyrgð er veitt fyrir stór heimilistæki keypt fyrir þann tíma.

Þegar tæki er keypt á kennitölu af lögaðila er ábyrgðartími eitt ár.

Ábyrgð vegna galla er í samræmi við lög um neytendakaup nr. 48/2003 og lög um lausafjárkaup nr. 50/2000.

Ábyrgðin nær eingöngu til stórra heimilistækja (s.s. þvottavéla, þurrkara, uppþvottavéla, kæli- og frystiskápa, háfa, eldavéla, helluborða, örbylgju- og bakstursofna) frá Siemens, Bosch og Gaggenau sem keypt hafa verið hjá Smith & Norland hf.

Það er skilyrði fyrir ábyrgðinni, að kaupandi hafi kynnt sér vel meðferð tækisins og fari að öllu leyti eftir leiðbeiningum sem í leiðarvísi eru. Kaupandi skal halda tækinu vel við, enda nær ábyrgðin ekki til skaða eða bilana, sem stafa af flutningi, rangri uppsetningu, rangri meðferð eða misnotkun, slysni eða óhöppum, náttúruhamförum, truflunum á rafkerfi hússins eða hverfisins o.s.frv.

Skilyrði fyrir ábyrgðinni eru almenns eðlis, s.s. að tilkynnt sé um galla án ástæðulauss dráttar og að ekki hafi verið átt við tækið af aðilum óviðkomandi seljanda nema í samráði við hann.

Seljandi áskilur sé rétt til að sannreyna galla. Komi upp vafi um hvort um galla sé að ræða ber að skoða slík tilfelli sérstaklega.

Seljandi á rétt á því að yfirfara tækið og koma því í samt lag án þess að til útskiptingar tækis þurfi að koma.

Ef kaupandi ber fyrir sig galla skal ávallt leita samþykkis seljanda áður en viðgerð er framkvæmd á söluhlut. Ef vara er staðsett utan Reykjavíkur og nágrennis skal kaupandi fylgja fyrirmælum seljanda um hvernig varan skal flutt til viðgerðar. Í sumum tilfellum getur seljandi vísað kaupanda til nálægs viðgerðaraðila (umboðsmanns). Hafið reikning ávallt við höndina ef gera þarf við tækið. Sé viðgerðar eða varahluta þörf, er nauðsynlegt að gefa upp heiti, gerð, vörunúmer (E-nr og FD nr.) og hvenær tækið var keypt.

Teljist nauðsynlegt að senda tæki á verkstæði Smith & Norland er minnt á nauðsyn þess að pakka því vel, fara í öllu að fyrirmælum leiðarvísis þegar þar er talað um sérstakan flutningsbúnað og möguleika þess að tryggja tækið gegn flutningsskemmdum. Ennfremur er nauðsynlegt að góð bilanalýsing (og myndir) fylgi með.

Ef viðgerð fer fram á tækinu á meðan ábyrgð er enn í gildi, framlengist ábyrgðin ekki á tækinu eða þeim hlutum sem skipt er út.

Við bendum á að gott er að geyma reikninginn á vísum stað, einnig eftir að ábyrgðartíma lýkur.

Ábyrgðin er eingöngu miðuð við venjulega heimilisnotkun og nær því ekki til tækja sem notuð eru af fleiri fjölskyldum, né tækja sem notuð eru af fyrirtækjum, hótelum eða mötuneytum.

Ábyrgð nær ekki til eðlilegs slits á búnaði vegna notkunar tækisins, s.s. slit á kolum, reimum, dælum, legum né brotnum handföngum, hillum, skúffum o.fl.

Tekið skal fram að ábyrgðartími allra þeirra endurhlaðanlegu rafhlaðna sem við seljum, hvort sem þær fylgja með tækjum á borð við skaftryksugur eða eru seldar stakar, er eitt ár.

Sendingarkostnaður

Smith & Norland býður upp á heimsendingu á vörum og er sá kostnaður sem hér segir:

Rafbúnaður

Sendingarkostnaður allra vara hvert á land sem er af raflagnaefnislager er 2.500 kr. með vsk. (2.016 kr. án vsk). Ef keypt er fyrir meira en 30.000 með vsk. (24.194 kr. án vsk.) eru vörurnar sendar að kostnaðarlausu. Þetta á einnig við ef vara er send á flutningamiðstöðvar, flugafgreiðslur eða bifreiðastöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Heimilistæki

Sendingarkostnaður vara af heimilistækjalager er

  • 1.700 kr. með vsk. (1.371 kr. án vsk.) fyrir smátæki hvert á land sem er,
  • 8.900 kr. með vsk. (7.177 kr. án vsk.) fyrir stórt heimilistæki til landsbyggðar,
  • 5.900 kr. með vsk. (3.952 kr. án vsk.) fyrir stórt heimilistæki innan höfuðborgarsvæðis og
  • 11.900 kr. með vsk. (7.984 kr. án vsk.) fyrir amerískan kæliskáp hvert á land sem er.

Óski kaupandi eftir því að vara sé send með leigubifreið er ætlast til að akstur sé greiddur af viðtakanda, þar sem sá kostnaður liggur ekki fyrir hverju sinni.

Skil á vöru(m)

Lagervöru sem enn er í sölu, í góðu ástandi og í upprunalegum umbúðum, fæst skilað gegn framvísun reiknings og skv. eftirfarandi skilmálum:

  • Ef vöru er skilað innan 30 daga reiknast hún án affalla.
  • Ef vöru er skilað innan 60 daga reiknast hún með 15% afföllum.
  • Eftir það, þ.e. innan 18 mánaða, reiknast varan með 30% afföllum.
  • Sérpantaðri vöru fæst almennt ekki skilað. Í einstaka tilfellum er það þó hægt með skilgreindum afföllum frá framleiðanda.

Tilboð

Tilboðsverð S&N eru almennt uppgefin í íslenskum krónum og miðast þau við dagsgengi, núverandi tolla og aðflutningsgjöld og taka þau mið af breytingum er kunna að verða þar á.

Verð eru almennt uppgefin með 24% vsk, nema annað komi fram.

Gildistími tilboða er almennt 30 dagar, nema á heimilistækjum þar sem hann er 10 dagar eftir tilboðsdag.

Tilboð miðast við staðgreiðslu vöru nema um annað hafi verið samið.

Staðfestingargjald vegna sérpantana

S&N áskilur sér rétt til að óska eftir greiðslu 30% staðfestingargjalds vegna sérpantana.

Kortalán Borgunar

Sjá hér

Vafrakökur

Vafrakökur eru smáar tölvuskrár sem sendar eru frá vefsíðunni í tölvuna þína til að auka eiginleika og virkni Smith & Norland-vefsíðunnar. Kökurnar fá nafnlausar upplýsingar um hvernig notendur nota vefinn og muna stillingar notenda í tiltekinn tíma. Engar persónulegar upplýsingar eru vistaðar um notendur út frá þessum upplýsingum. Við áframsendum aldrei upplýsingar til þriðja aðila.

Ef þú vilt ekki nota vafrakökur má breyta stillingum í vafranum sem þú notar svo að upplýsingar verði ekki vistaðar án þess að beðið sé um leyfi fyrst. Ef netvari þinn leyfir kökur senda flestar heimasíður þær í tölvuna eða snjallsímann. Hins vegar getur þú breytt stillingum til að taka ekki á móti þeim. Það er gert á mismunandi hátt í vafranum en jafnan í gegnum „Options“- eða „Preferences“-flipann. Nálgast má upplýsingar um eyðingu stillinga fyrir vafrakökur á aboutcookies.org.

Smith & Norland notar vafrakökur („cookies“) í því skyni að gera vefinn enn betri og aðgengilegri fyrir notendur. Til að upplifa alla þá eiginleika, sem vefsíða Smith & Norland hefur upp á að bjóða, mælum eindregið með því að vafrinn samþykki vafrakökur („cookies“).

Póstlistinn okkar

Sjá hér